Um Sköpunartorg

Á Sköpunartorgi mætast borgarar, fyrirtæki, sveitarfélög og aðrir hópar og ræða hugmyndir sem gætu gert samfélagið betra. Einstaklingar geta kannað áhuga á viðburðum og hátíðum og gert þær að veruleika með hópfjármögnun. Fyrirtæki geta náð til viðskiptavina sinna og safnað hugmyndum um vörur og viðskiptaleiðir. Sveitarfélög og stofnanir með húsnæði, fjármagn eða starfskraft til góðra verkefna geta fengið innblástur hjá almenningi til að nýta krafta sína sem best.

Almenningssundlaugar, skólagarðar, tónlistarhátíðir og rafhlaupahjólaleigur eru allt afleiðingar af því að einhver fékk hugmynd og gerði tilraun.

Með sköpunarkrafti og samvinnu getum við haft jákvæð áhrif á umhverfi okkar án ótta við mistök - eitt tilraunaverkefni í einu. Ertu með?

Hvað?

Sköpunartorg er rafrænn lýðræðislegur vettvangur fyrir tilraunaverkefni, hópfjármögnun og hugmyndasöfnun. Á Sköpunartorgi fer fram samfélagsleg nýsköpun þar sem borgarar leysa vandamál, leggja til endurbætur á eldri lausnum eða koma með nýjar.

Hér eru gerðar tilraunir. Sumar ganga upp og aðrar ekki en hér er rými til að gera mistök, læra af þeim og halda áfram.

Hvers vegna?

Markmið verkefnisins er í senn að efla lýðræði og virkja sköpunarkjark og framkvæmdagleði borgara, og skapa vettvang fyrir samvinnu ólíkra aðila með ólíka styrkleika.

Fyrir hverja?

Vettvangurinn er fyrir alla sem vilja nýta sköpunar- og framkvæmdagleði sína í jákvæð tilraunaverkefni, hvort sem þeir eru í Þjóðskrá eða Fyrirtækjaskrá - einstaklingar, hópar, fyrirtæki, stofnanir. Hugmyndir fæðast á ólíklegustu stöðum og á Sköpunartorgi er hægt að koma þeim áleiðis til þeirra sem gætu gert þær að veruleika.

Sköpunartorg er líka fyrir þá sem hafa áhuga á að leggja fjármagn til áhugaverðra tilraunaverkefna og sjá umhverfi sitt blómstra.

Almennar upplýsingar
Birting efnis

Þegar ný hugmynd er sent inn á Sköpunartorg þurfa stjórnendur síðunnar að samþykkja það og ganga úr skugga um að það uppfylli öll skillyrði. Við tryggjum að texti og myndir séu skýr og lýsandi og bjóðum fram aðstoð ef þörf er á. Það þarf varla að taka fram að við birtum ekkert ólöglegt, óviðeigandi eða særandi. Þá birtist tilraunin á Sköpunartorgi þar sem aðrir geta lesið um verkefnið, rætt kosti og galla, lagt til betrumbætur eða boðist til að taka þátt í að gera hana að veruleika.

Reglur um góða hegðun og framkomu

Hér fylgjum við meginreglum um opna nýsköpun (e. open innovation), þar sem við erum móttækileg fyrir því sem aðrir hafa fram að færa og örlát á að deila því sem við höfum komist að. Við vinnum upphátt, og saman gerum við verkefnin okkar betri. Stjórnendur síðunnar gefa ráð og koma með ábendingar en það er notendum í sjálfsvald sett hvort þeim ráðleggingum er fylgt. Notendur eru sjálfir ábyrgir fyrir að efni sem þeir setja inn á Sköpunartorg hafi öll tilskilin leyfi (t.d. fyrir myndbirtingu) og framkvæmd verkefna sem hér verða til.

Sköpunartorg er hvetjandi samfélag þar sem við styðjum hvert annað og styrkjum, því það er bara þannig fólk sem við erum.

Allt efni sem er sett inn á síðuna og stjórnendur hennar meta sem a) ólöglegt, b) óviðeigandi, c) móðgandi eða særandi er fjarlægt af síðunni. a) Ólöglegt efni er t.d. það sem brýtur lög um höfundarrétt, persónuvernd, hvetur til lögbrota o.s.frv. b) Óviðeigandi efni er t.d. það sem á ekki heima á þessum vettvangi af einhverjum ástæðum sem eru metnar af stjórnendum síðunnar. c) Undir móðgandi eða særandi efni fellur t.d. efni sem inniheldur hatursorðræðu eða er til þess gert að útiloka eða niðurlægja ákveðna hópa eða einstaklinga.

Notendur eru vinsamlega beðnir um að nota Sköpunartorg undir sínu eigin rétta nafni, því það eykur traust og auðveldar alla samvinnu. Notendur eru einnig hvattir til að setja inn mynd af sér og lífga þannig upp á mannlífið á Sköpunartorgi.